Innlent

VG vill auka skatta á tekjur yfir 6 milljónir

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir varaformaður kynntu í gær tillögur flokksins um tekjur og sparnað í ríkisrekstrinum. 
fréttablaðið/anton
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir varaformaður kynntu í gær tillögur flokksins um tekjur og sparnað í ríkisrekstrinum. fréttablaðið/anton
Forysta VG kynnti í gær tillögur flokksins um ráðstafanir í ríkisrekstrinum. Ná þær bæði til aukinnar tekjuöflunar og aukins sparnaðar. Afrakstrinum á að verja til að draga úr niðurskurði í velferðarkerfinu.

Veigamesta tekjuöflunarleið VG felst í breytingu á tekjuskattskerfinu. Vill flokkurinn að tveimur nýjum skattþrepum verði bætt við þannig að sérstakt álag upp á þrjú prósent leggist ofan á tekjur sem fara yfir sex milljónir á ári og átta prósenta álag leggist á laun umfram 8,4 milljónir á ári. Að mati flokksins færir þessi ráðstöfun ríkissjóði á þriðja milljarð króna á næsta ári. Við efstu mörk næmi skattheimtan tæpum 43 prósentum af tekjum. Tillaga VG er að þessi ráðstöfun verði í gildi út árið 2010.

VG vill líka að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr tíu prósentum í fjórtán. Fjármagnstekjur að 120 þúsund krónum á ári verði undanþegnar skattinum. Með þessu móti gætu tæpir þrír milljarðar innheimst á næsta ári.

Þá leggur flokkurinn til að fólki, sem lifir á fjármagnstekjum einum saman, verði gert að telja fram tekjur og greiða af þeim hefðbundna skatta. Samtals afla tillögurnar ríkissjóði á sjötta milljarð króna á næsta ári.

VG leggur líka til sparnaðaraðgerðir umfram þær sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu eins og það lítur nú út. Vill flokkurinn að Varnarmálastofnun verði lögð niður og nauðsynleg starfsemi hennar flutt annað. Við það gætu sparast um 800 milljónir á næsta ári. VG vill líka hætta við stofnun Sjúkratryggingastofnunar, spara í yfirstjórn ráðuneyta og opinberra stofnana, hætta við þátttöku í heimssýningunni í Kína 2010 og afleggja fastar dagpeningagreiðslur til ráðherra, þingmanna á ferðalögum. Flokknum reiknast til að með þessum ráðstöfunum gætu sparast á annan milljarð króna á næsta ári.

Þeim fjármunum sem vinnast vill flokkurinn verja til að hverfa frá hugmyndum stjórnvalda um skerðingu í almannatryggingakerfinu og niðurskurði og gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu.bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×