Innlent

Ella Dís á leiðinni til Kína í stofnfrumumeðferð

Breki Logason skrifar
Ella Dís er á leiðinni í stofnfrumumeðferð í Kína.
Ella Dís er á leiðinni í stofnfrumumeðferð í Kína.

Ella Dís er tveggja ára gömul hetja sem greindist með lífshættulegan og ólæknandi hrörnuarsjúkdóm fyrir um ári síðan. Vísir fylgdist með Ellu Dís í desember á síðasta ári en þá hafði hún misst mátt í vinstri hönd og máttur hægri handar fór minnkandi. Henni hefur hrakað mikið síðan þá en nú hyggst Ragna Erlendsdóttir móðir stúlkunar halda með hana til Kína í stofnfrumumeðferð.

Það ferðalag er kostnaðarsamt og er Ragna að reyna að safna fyrir innborgun fyrir meðferðinni svo hægt sé að halda út sem fyrst.

„Ég er fyrst og fremst að safna fyrir innborguninni núna en þegar hún er komin fæ ég tíma og get flogið út," segir Ragna í samtali við Vísi

Meðferðin tekur 40 daga en Ella Dís mun dvelja á sjúkrahúsi allan þann tíma. „Hún fær tíu sprautur með milljónum stofnfruma sem er sprautað í mænuna á henni," segir Ragna en spítalinn sem hún hefur verið í sambandi við hefur mikið hjálpað blindum krökkum sem hafa fengið sjónina aftur.

Stofnfrumur geta breytt sér í hvaða frumur sem er í líkamanum og vonar Ragna að þær geti komið í staðinn fyrir þær sem eru að deyja í Ellu Dís.

„Hún er í raun bara lítið tveggja mánað barn í tveggja ára líkama. Hún er öll máttlaus og getur ekki labbað auk þess sem hún er farin að missa höfuðið. Málið og tungan er farin að versna og hún er bara öll að veslast upp. Hún er líka komin með næringu í magann og ég er farin að sjá mun á henni bara á milli vikna."

Ragna hefur á síðustu mánuðum leitað úrræða fyrir dóttur sína og rakst á spítalann í Kína á netinu. „Það var bara á google sem er ótrúlegt fyrirbæri, ég hef bara verið á netinu að leita úrræða."

Meðferðin og spítalavistin kosta um 2,6 milljónir íslenskra króna og reiknar Ragna með að allur pakkinn sé í kringum 4 milljónir.

„Viðbrögðin og samhugurinn sem ég hef fundið fyrir eru ótrúleg. Mér þykir ofboðslega vænt um hvað fólk hefur staðið vel með mér."

Hægt er að styrkja Rögnu og Ellu Dís með því að leggja inn á styrktarreikning. Margt smátt gerir eitt stórt.

Reikningur: 0525-15-020106

Kennitala: 020106-3870

Hér er hægt að sjá ummfjöllun Vísis um Ellu Dís síðan í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×