Skoðun

Lærum af sögunni

Grímur Hákonarson skrifar

Fyrir nokkrum árum síðan var mikil umræða í þjóðfélaginu um „dreifða eignaraðild“. Flestir virtust sammála um að tryggja þyrfti dreifða eignaraðild að helstu fyrirtækjum þjóðarinnar til að koma í veg fyrir samþjöppun valds og hugsanlega misnotkun í krafti stærðar.

Mogginn og Vinstri Grænir voru helstu talsmenn fyrir því að sett yrðu lög um dreifða eingaraðild. En einhverra hluta vegna voru þau lög aldrei sett. Og á einhverjum tímapunkti, eftir að búið var að einkavæða bankana og útrásin komin á fullt, þá þótti hreinlega hallærislegt að tala um dreifða eignaraðild. Það voru bara afturhaldsseggir eins og Styrmir á Mogganum og Ögmundur Jónasson sem töluðu þannig.

Þegar bankarnir voru einkavæddir var nýtt hugtak innleitt í íslenska tungu: „Kjölfestufjárfestir“. Fallegt orð? Nokkrir einstaklingar fengu sem sagt að eignast ráðandi hlut í bönkunum, um 40-50%, og gátu þar af leiðandi gert nánast hvað sem þeir vildu við bankann. Fljótlega eftir einkavæðingu bankanna árið 2003 má segja að Ísland hafi verið komið í eigu nokkurra einstaklinga, aðallega þó tveggja feðga, Björgólfs- og Bónus-feðga. Þetta hljómar hálf súrrealískt en svona var þetta. Íslendingar skiptust í tvær fylkingar, sumir töldu Björgólfana vera góðu gæjana en aðrir voru hallir undir Bónus-feðga, enda stofnuðu þeir Bónus. Björgólfur eldri fékk kredit fyrir það að styrkja menningarstarfsemi og sá yngri var fyrsti Íslendingurinn til að komast á Forbes-listann yfir ríkustu menn heims.

Nú veltir maður því fyrir sér, þegar fjármálakerfið er hrunið og bankarnir eru aftur komnir í eigu ríkisins, hvort ekki sé skynsamlegt að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur? Eða ætlum við að halda áfram að þjóðnýta bankakerfið á fimm ára fresti og borga brúsann fyrir fjárglæframenn? Staðreyndin er sú að þeir sem eru helst í stakk búnir til að kaupa bankana núna eru þeir sömu og settu þá á hausinn (þeir eru þegar byrjaðir að bjóða í þá). Við lifum í fámennu þjóðfélagi þar sem allt stóreignafólk kæmist sennilega fyrir á balli á Broadway. En hvað ætlum við þá að gera til að koma í veg fyrir að sömu einstaklingarnir eignist þessi fyrirtæki þegar kreppan er yfirstaðin? Búa til nýja viðskiptaelítu úr einræktuðum SUS-urum? Senda þeim ríkistryggða ávísun í pósti og segja þeim að byrja að fjárfesta?

Nú stefnir allt í fjöldagjaldþrot á Íslandi og mörg stærstu fyrirtækin eru í rauninni þegar komin í eigu ríkissins í gegnum bankana. Stjórnmálamenn skortir hins vegar kjark til að stíga skrefið til fulls og taka eignirnar af auðmönnunum, með öðrum orðum þjóðnýta allt heila klabbið. Það gerist ekki á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. En þegar það gerist, sem er óhjákvæmilegt, þá verður það sársaukafullt til að byrja með en til lengri tíma litið þá hefur það mikla möguleika í för með sér. Við Íslendingar fáum tækifæri til að stokka spilin algjörlega upp á nýtt. Þjóðin eignast kvótann aftur og óskabarn þjóðarinar, Eimskip, verður loksins alvöru óskabarn.

Í stað þess að reyna að búa til „bisness-elítu“ úr SUS-urum, eða selja alla bankana til erlendra aðila, þá held ég að það sé í fyrsta lagi mjög mikilvægt að ríkið haldi einhverjum hlut í bönkunum. Ríkið verði því „kjölfestufjárfestir“ sem kemur í veg fyrir að einstakir menn blóðmjólki bankana eins og tíðkaðist á útrásartímanum.

Og í stað þess að pólitíkusar séu að vasast í bankarekstri þá ættu viðskiptavinir bankanna að fá að kjósa bankastjóra og æðstu yfirmenn þeirra. Fólk gæti kosið sér bankastjóra í heimabankanum sínum, og fellt þá ef þeir verða uppvísir að spillingu. Einnig held ég að það væri skynsamlegt að ríkið ætti einn banka sem væri þá markaðssettur sem „banki fyrir fólk sem nennir ekki að taka áhættu“. Eins og ég til dæmis.

Í sambandi við kvótann þá ætti ríkið að leigja út kvótann til að byrja með á meðan við erum að komast í gegnum mestu erfiðleikana. En í framtíðinni þá ætti að skipta kvótanum jafnt á milli allra landsmanna. Hver og einn Íslendingur fengi kvótabréf sem hann gæti ráðstafað að vild, selt á markaði eða nýtt sér til veiða. Þannig dreifum við gæðunum upp á nýtt og komum í veg fyrir að útrásargeðveikin endurtaki sig.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.




Skoðun

Sjá meira


×