Innlent

Toppverktakar ekki sáttir en skilja afstöðu Vegagerðarinnar

Jarðvélar fóru á hausinn áður en tvöföldun brautarinnar lauk.
Jarðvélar fóru á hausinn áður en tvöföldun brautarinnar lauk. MYND/Vilhelm

Ágúst Snæbjörnsson, eigandi Toppverktaka sem ásamt litháíska verktakafyrirtækinu Adakris átti lægsta tilboð í lokakafla við tvöföldun Reykjanesbrautar segist ekki sáttur við að fá ekki verkið. Þeir eru þó hvergi nærri af baki dottnir og hefur Adakris fullan hug á að komast inn á íslenska markaðinn.

„Auðvitað eru menn ekki sáttir með þetta," segir Ágúst. „En það má kannski segja að hér sé um meira en venjulegt útboð að ræða þar sem tvöföldun brautarinnar hefur verið mikið hitamál. Við skiljum því afstöðu Vegagerðarinnar að vissu leyti."

Ágúst bendir þó á að tilboð Ístaks hafi verið hærra sem nam 108 milljónum króna. „Ef það er verðmiðinn sem þeir vilja greiða fyrir að hafa þetta svona þá er það bara þannig." Ágúst segir að Toppverktakar og Adakris hafi skilað inn öllum gögnum sem um var beðið. Auk þess uppfylli Adakris alla þá staðla sem krafa var gerð um í útboðslýsingu, ISO staðlana 9001 og 14001.

„Það voru sett ströng skilyrði í útboðinu sem við teljum okkur hafa uppfyllt að öllu leyti," segir Ágúst. „Vegagerðin tók þau öll til greina nema eitt, en það snérist um hvort fyrirtækið hafi framkvæmt sambærilegt verk sem nemur að minnsta kosti 50 prósentum af kostnaði þessa verks. Við skiluðum inn dæmi um það frá Litháen en Vegagerðin féllst ekki á það," segir Ágúst.

Hann bendir einnig á að Ístak hyggist hefja framkvæmdir í lok maí en að Toppverktakar hafi verið tilbúnir til að hefjast strax handa, eins og hafi raunar verið kveðið á um í útboðslýsingu. „En það er ekkert við þessu að segja. Vegagerðin ræður þessu á endanum og þeir mátu þetta svona. Við erum hins vegar hvergi nærri hættir. Við stefnum að því að fara í samkeppni við stóru verktakana hér á landi og það eru fleiri verk í undirbúningi," segir Ágúst Snæbjörnsson hjá Toppverktökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×