Innlent

Rjúpnaveiðar með sama sniði og í fyrra

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að rjúpnaveiðar verði heimilaðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga í nóvembermánuði í ár líkt og í fyrra.

Mælst er til þess að hver veiðimaður skjóti ekki fleiri en tíu fugla og sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum verður áfram í gildi. Fram kemur í tilkynningu umhverfisráðuneytinu að ákvörðunin byggist á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2007.

Náttúrurfræðistofnun greindi frá því fyrr á árinu að fækkunarskeiði rjúpunnar væri lokið eftir aðeins tvö ár, kyrrstaða væri um landið vestanvert en á austari hluta lands væri fjölgun í stofninum. „Að mati stofnunarinnar gætir hér hugsanlega áhrifa af þeirri miklu sóknarskerðingu sem ákveðin var síðastliðið haust en veiðidögum var þá fækkað í átján. Einnig er talið að veiðimenn hafi hlýtt hvatningu um að sýna hófsemi í veiðum," segir í tilkynningunni.

Þessi ákvörðun ráðherra þýðir að veiðidagarnir verða alls átján og verður virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×