Innlent

Ákvörðun um Droplaugarstaði frestað

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Björk Vilhelmsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir

Velferðarráð Reykjavíkur ákvað á aukafundi sínum nú fyrir stundu að fresta ákvörðun um tillögu varðandi rekstrarform hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða við Snorrabraut fram í ágúst.

Fyrir fundinum lá tillaga meirihlutans um fá einkaaðila til þess að reka hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði. Tillagan hefur verið gagnrýnd af minnihlutanum.

,,Ákvörðun um Droplaugarstaði hefur verið frestað til næsta fundar velferðarráðs sem ráðgert er að halda í lok ágúst," sagði Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi.

Bókun minnihlutans

Reykjavíkurborg hefur undanfarna áratugi rekið Droplaugarstaði. ,,Með rekstrinum hefur borgin m.a. tryggt að þeir sjúklingar sem önnur hjúkrunarheimili hafa ekki viljað eða getað sinnt, hafa fengið inni á Droplaugarstöðum," segir í bókun sem fulltrúar Samfylkingar, Vinstri-grænna og Framsóknarflokks lögðu fram á fundinum í dag.

Minnihlutinn telur möguleika annarra rekstraraðila til að minnka rekstarkostnað vera annað hvort að lækka laun starfsmenna eða draga úr aðbúnaði við heimilisfólk. ,,Báðir kostirnir eru óásættanlegir," eins og segir í bókuninni.

Þar segir einnig að viðræðum við heilbrigðisráðuneytið vegna rekstrarhalla sé ólokið. Minnihlutinn telur heppilegt að ljúka viðræðum áður en ákveðið verður að bjóða rekstur Droplaugarstaða út.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×