Innlent

Íslendingur handtekinn í Kína - Í varðhaldi síðan á laugardag

Andri Ólafsson skrifar
Guangzhou í Kína
Guangzhou í Kína

Íslenskur ríkisborgari hefur verið í varðhaldi í Guangzhou í Kína síðan á laugardag. Dvalarleyfi mannsins er útrunnið og var hann því handtekinn af kínverskum yfirvöldum og hnepptur í varðhald.

Utanríkisþjónustan fylgist grannt með málinu og hefur fulltrúi hennar hitt Íslendinginn og kannað aðstæður hans í varðhaldinu.

Utanríkisþjónustan hefur verið fullvissuð um að Íslendingurinn verði látinn laus einhvern tímann í næstu viku en honum verður þá vísað úr landi.

Íslendingurinn sem um ræðir er fæddur 1981 og er með lögheimili í Svíðþjóð. Hann hefur verið í Kína við nám í um eitt og hálft ár.

Að sögn ættingja hans var hann handtekinn fyrirvaralaust síðasta laugagardag og tjáð að dvalarleyfi hans væri útrunnið. Hann var svo yfirheyrður langt fram á sunnudag. Síðan þá hefur hann þurft að dúsa í varðhaldi og bíður þess að mál hans leysist.

Aðstæður í varðhaldinu þar sem Íslendingurinn þarf að dúsa eru að sögn starfsmanns utanríksþjónustunnar "þolanlegar".

Guanzhou er 6 milljón manna borg í sunnanverðu Kína. Hún er þriðja stærsta borg landsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×