Innlent

Forstjóri Strætó skilar greinargerð um málefni trúnaðarmanns

Breki Logason skrifar

„Við erum í því ferli núna að skila greinargerð um málið til okkar yfirmanna. Það er síðan mögulegt að gefin verði út yfirlýsing til fjölmiðla í kjölfarið en það er þeirra ákvörðun," segir Reynir Jónsson forstjóri Strætó bs. Talsverð læti hafa verið í kringum uppsögn trúnaðarmanns félagsins sem hefur sakað forstjórann um einelti.

„Við höfum kosið að leysa þetta mál ekki í fjölmiðlum og ég reikna með því að fundur verði haldinn í dag þar sem þetta verður rætt," segir Reynir og bendir á að mál Jóhannesar Gunnarssonar trúnaðarmanns Strætó sé fyrir dómstólum og bíða þurfi niðurstöðu þess.

Jóhannesi var veitt áminning í starfi sem hann vildi fá ógilda en fyrirtaka í því máli fór fram á fimmtudaginn. Í kjölfarið var Jóhannesi boðinn starfslokasamningur sem hann þáði ekki. Á föstudagsmorgun var honum síðan sagt upp störfum.

Reynir vill ekki ræða uppsögn Jóhannesar sem hann lítur á sem innanhúsmál.

Í gær sagði Vísir frá áliti landlæknisembættisins í kjölfar kvörtunar nokkurra starfsmanna fyrirtækisins vegna tilkynningarskyldu um veikindi.

Í bréfi starfsmannanna kemur fram að tilkynna þurfi veikindi til tveggja aðila. Annarsvegar til fyrirtækisins og hinsvegar til Heilsuverndarstöðvarinnar, Inpro.

Í fyrrnefndu áliti telur landlæknisembættið að stjórnendur fyrirtækis geti ekki gert þá kröfu að starfsfólk tilkynni veikindi sín og veiti nánari upplýsingar um sjúkdóma sína til annars læknis en það kýs sjálft.

Reynir segir þetta byggt á misskilningi því menn geti verið með sína heimilislækna og tilkynnt sín veikindi þangað.Trúnaðarlæknir Strætó geti hinsvegar leitað til viðkomandi læknis og fengið staðfestingu um veikindi viðkomandi starfsmanns.

Hann bendir einnig á að í kjarasamningi milli aðildarsamtaka Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, frá 19.febrúar sl., sé bókun um tilkynningu til trúnaðarlæknis/þjónustufyrirtækis á sviði vinnuverndar.

Þar segir að samningsaðilar muni skipa viðræðunefnd sem ætlað er að semja um fyrirkomulag varðandi tilkynningu veikinda til trúnaðarlæknis/þjónustufyrirtækis á sviði vinnuverndar og mun nefndin eiga samstarf við Persónuvernd, Landlækni, Vinnueftirlit ríkisins og hagsmunaaðila.

Reynir segir að vinna nefndarinnar sé í fullum gangi en henni er ætlað að ljúka störfum eigi síðar en 30.nóvember 2008. Komist samningsaðilar að sameiginlegri niðurstöðu skal samningur þeirra teljast hluti af kjarasamningi aðildarsamtaka þeirra og taka gildi 1.janúar 2009.

Strætó er ekki aðili að aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífins og því munu tillögur viðræðunefndarinnar ekki hafa bein áhrif á Strætó en hafa fordæmisgildi fyrir aðila á vinnumarkaðnum að sögn Reynis.

„Hinsvegar mun þetta hafa bein áhrif á starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. sem heftur átt í viðskiptum við Strætó allar götur síðan 1994, því þeir eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins.“

Í bókuninni segir einnig að á meðan framangreindri vinnu standi geri samningsaðilar ekki athugasemdir við starfsemi þjónustufyrirtækja á sviði vinnuverndar sem fengið hafa viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins sem þjónustuaðila á sviði vinnuverndar og tilkynningarskyldu starfsmanna þeirra.


Tengdar fréttir

Trúnaðarmanni Strætó sagt upp störfum - segist lagður í einelti

Jóhannes Gunnarsson vagnstjóri hefur verið trúnaðarmaður hjá Strætó BS síðan í nóvember. Mikil ólga hefur verið milli trúnaðarmanna Strætó og forstjórans Reynis Jónssonar. Jóhannes mætti meðal annars niður í Héraðsdóm í gærmorgun til þess að ræða málin. Í kjölfarið var honum boðinn starfslokasamningur sem hann þáði ekki og var í kjölfarið sagt upp störfum.

Strætó óheimilt að velja lækni fyrir vagnstjóra

Landlæknisembættið telur stjórnendur Strætó bs. ekki geta gert þá kröfu að starfsfólk tilkynni veikindi sín og veiti nánari upplýsingar um sjúkdóma sína til annars læknis en það kýs sjálft að leita til. Trúnaðarmenn Strætó óskuðu eftir úrskurði landlæknis vegna samskipta starfsmanna fyrirtækisins og Heilsuverndarstöðvarinnar Impro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×