Erlent

Í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða barn sitt í örbylgjuofni

Bandarísk kona var í gær dæmd í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir að hafa myrt mánaðagamalt barn sitt með því að setja það í örbylgjuofn.

Saksóknari fór fram á að hin tuttugu og átta ára gamla China Arnold yrði dæmd til dauða fyrir ódæðið. Kviðdómur var klofinn í afstöðu sinni til þess hvort svo ætti að vera eða hvort hún ætti að fá lífstíðarfangelsisdóm án möguleika á reynslulausn.

Dómari úrskurðaði í morgun að Arnold skyldi fá lífstíðardóm og hafnaði ósk verjanda hennar um að hún ætti möguleika á reynslulausn eftir aldarfjórðung í fangelsi. Engin reynsluausn yrði í boði því ódæðið væri það hræðilegt.

Arnold hefur haldið fram sakleysi sínu frá fyrsta degi. Dóttir hennar Pari Talley var myrt í ágúst 2005. Skömmu áður höfðu Arnold og kærasti hennar deilt um faðerni dótturinnar.

Engir ytri áverkar sáust á barninu en sum líffæra þess voru hins vegar illa brennd og þótti það benda til að það hefði verið myrt á þennan óhugnanlega hátt. Lífssýni úr Paris Talley fundust inni í örbylgjuofninum.

Klefafélagi Arnold bar fyrir dómi að hún hefði játað á sig morðið fyrir sér. Hún hefði sett barnið í ofninn og kveikt á honum því hún hafi verið hrædd um að kærastinn færi frá henni ef hann kæmist að því að hann ætti ekki barnið.

Búið er að rétta tvívegis yfir Arnold vegna málsins. Fyrri sakfelling var ógild þegar ný vitni komu fram í málinu. Verjandi hennar segir marga annmarka enn á málinu. Hann vill að nýja sakfellingin verði dæmd ógild og að aftur verið réttað yfir Arnold.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×