Erlent

Skipulagsyfirvöld í New York lesa De Niro pistilinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Leikarinn Robert De Niro, sem nú er um það bil að hefja hótelrekstur í New York-borg, var kallaður fyrir skipulagsnefnd borgarinnar á þriðjudaginn.

Nefndin sættir sig illa við að leikarinn fór langt út fyrir allt sem heimilað hafði verið af skipulagsyfirvöldum þegar hann lét byggja hótelið sem er í Greenwich Village-hverfinu neðarlega á Manhattan. Hótelið er sjö hæðir og reyndist þegar upp var staðið vera töluvert stærra að flatarmáli en leyfi höfðu fengist fyrir. Þá er þakið ekki í samræmi við það sem skipulagsnefndin hafði gert ráð fyrir auk þess sem útlit hússins er að hennar mati úr takti við önnur hús í götunni.

Borgaryfirvöldum þykir De Niro fara gróflega út fyrir þann ramma sem honum var settur í byggingarleyfi árið 2004, einkum í ljósi þess að hótelið var að hluta til fjármagnað með skattfrjálsum skuldabréfum sem gefin voru út sem liður í endurbyggingu New York eftir 11. september 2001. Leikarinn bað skipulagsnefndina að virða sér yfirsjónina á hægri veg, aldrei hefði annað vakað fyrir honum en að gera hótelið eins vel úr garði og hægt var. Nefndin vill hins vegar að hann fjarlægi þaksvítu hótelsins og byrji upp á nýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×