Erlent

Haga viðurkenndi að hún hefði hugsanlega gert mistök

Áslaug Marie Haga formaður norska Miðflokksins og olíu- og orkumálaráðherra sagði af sér í morgun. Ráðherrann hefur verið sökuð um skattsvik og hún viðurkenndi í morgun að hugsanlega hefði henni orðið á einhver mistök.

Áslaug María Haga hefur verið formaður norska Miðflokksins frá árinu 2003. Flokkurinn komst í ríkisstjórn árið eftir kosningarnar 2005. Hún varð olíu- og orkumálaráðherra Noregs í september 2007.

Þrálátur orðrómur hefur verið um það í Noregi að hún hafi ekki talið fram leigutekjur af húsnæði sem hún á í Osló. Málið var tekið upp í fjölmiðlum og nú segir ráðherrann að hún ætli ekki að sitja undir þessu lengur og tilkynnti afsögn sína í morgun.

Hún segir ekki aðeins af sér sem ráðherra, heldur einnig sem leiðtogi Miðflokksins. Á blaðamannafundinum í morgun sagði hún það vel geta verið að hún og fjölsklylda hennar hefðu gert einhver mistök varðandi framtal á tekjum af þeim íbúðum sem hún leigir í Osló.

Þá sagði ráðherrann hún segði af sér öllum trúnaðarstörfum nú vegna heilsu sinnar. Hún hefði verið undir mjög miklu álagi undanfarnar vikur og einnig sinnt mjög krefjandi störfum og því hefði hún tekið þessa ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×