Innlent

Ekki tilbúinn að gefa Hvergerðingum meira land

Ólafur Áki Ragnarsson
Ólafur Áki Ragnarsson

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, segist ekki tilbúinn að gefa eftir meira landsvæði til Hvergerðinga. Sveitarfélögin greinir á um yfirráð yfir landspildum á mörkum sveitarfélagannna. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær hefur landspilda á mörkum sveitarfélaganna valdið nokkrum óþægindum.

Svæðið tilheyrir Ölfusi en liggur þétt upp við Hveragerði. Þar búa um 20 íbúar sem sækja alla þjónustu til Hveragerðis.

Haft var eftir Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra Hveragerðis í fréttum í gær að þessi staða væri byrjuð að skapa vandræði fyrir íbúa á umræddu svæði og truflaði einnig skipulagsmál.

Bæjarstjóri Ölfuss vísar þessu á bug.

"Þetta hlýtur að vera heimatilbúinn vandi í Hveragerði. Við erum alveg klárir á því hvar hreppamörkin eru. Við höfum verið með þetta skipulagsvald og erum alveg fullfærir um að skipuleggja ef að landeigandi óskar eftir skipulagi þá erum við alveg tilbúnir. það er enginn ágreiningur um það," segir Ólafur Áki.

En kemur til greina að gefa svæðið eftir?

"Ég tel það nú alls ekki. það er nú þannig að sveitarfélagamörkin voru ákveðin þarna árið 1946. við höfum í tvígang eða þrígang fært þau til fyrir Hvergerðinga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×