Innlent

Dagur: Mikil örvænting hjá Sjálfstæðisflokknum

MYND/Pjetur
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir samstöðu minnihlutans í borgarstjórn hafa verið órofna alveg frá því að hundrað daga meirihlutinn varð til og hvergi borið þar skugga á. Hann treystir sér ekki til að spá fyrir um framhaldið í borgarmálunum en segir mikla örvæntingu hjá Sjálfstæðisflokknum.

Fréttablaðið greinir frá því að sjálfstæðismenn hafi verið óformlegum viðræðum við Framsóknarflokkinn um meirihlutasamstarf og að sjálfstæðismenn muni ræða saman um málið í dag. Dagur svaraði spurningum þáttarstjórnenda Bítisins á Bylgjunni í morgun og þar sagði hann Sjálfstæðisflokkinn vera að skrifa nýjan fréttafarsa. Enginn annar handritshöfundur væri að honum nema borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins. Benti Dagur á að minnihlutinn hefði í upphafi núverandi meirihlutasamstarfs sagt að það væri stjórnarkreppa í borginni og því hefði verið sífellt minni mótmælt eftir því sem liðið hefði á árið.

Dómgreindarbrestur og skortur á kjarki

Aðspurður hvað hann myndi gera í sporum oddvita sjálfstæðismanna sagði Dagur að hann ætti erfitt með að setja sig í þau. Hann teldi þó að Hanna Birna og borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hafi gert mistök í janúar með því að fallast á samstarf við F-listann. Það hafi verið ákveðinn dómgreindarbrestur og skortur á kjarki til að setja hnefann í borðið.

Dagur segir minnihlutannn hafa samþykkt að taka ekki þátt í slíkum klækjastjórnmálum. Minnihlutinn hafi ætlað að einbeita sér að aðhaldi við meirihlutan en það hafi verið rólegt verkefni því sundrungin hafi verið innan meirihlutans, bæði innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og á milli sjálfstæðismanna og Ólafs.

Vill ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn

Dagur minnti á að Morgunblaðið hefði í vetur lagt til að Samfylkingin gengi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn við stjórn borgarinnar og þá hefðu Vinstri - græn einnig verið nefnd. Nú virtust leiðaraskríbentar Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið beina sjónum sínum að Framsóknarflokknum. Dagur sagðist enn fremur ekki treysta sér að spá fyrir um framhaldið en sagði mikla örvæntingu hjá Sjálfstæðisflokknum.

Aðspurður um háværar raddir sem vilja að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin komi á styrkum meirihluta í borginni sagði Dagur að Samfylkingin stæði undir því að stjórna borginni en það sem hefði gerst við myndun núverandi meirihluta væri fordæmalaust og óafsakanlegt. Þegar gengið var á hann sagðist hann ekki vilja vinna með sjálfstæðismönnum og sagði Samfylkinguna ekki vera að fara á taugum þótt sjálfstæðismenn væru það.

Hlusta má á viðtalið hér.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×