Innlent

Framlög til flestra ráðuneyta aukast

MYND/Pjetur

Greiðslur úr ríkissjóði til flestra ráðuneytanna tólf aukast á milli ára samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi 2009 sem lagt var fram í dag.

Samkvæmt fjárlagfrumvarpinu verða 2,5 milljarðar greiddir til forsætisráðuneytisins úr ríkissjóði á næsta ári en 2,1 milljarðar runnu þá leið í ár samkvæmt fjárlagafrumvarpi síðasta árs. Framlög til menntamálaráðuneytisins fara úr 53 í um 57 milljarða, til dómsmálaráðuneytisins úr 23 í 27 milljarða og til sjávarútvegsráðuneytisins úr 15,2 í 17,7 milljarða.

Enn fremur aukast framlög ríkissjóðs til utanríkisráðuneytisins úr tæpum níu milljörðum í 11,4 milljarða, þar af aukast framlög til varnarmála um einn milljarð. Framlög til félagsmálaráðuneytisins úr ríkissjóði verða 54 milljarðar króna á næsta ári en voru 42 milljarðar í ár. Þá aukast framlög til heilbrigðsráðuneytisins um 17 milljarða, úr 101 milljarði í 118, og fjármálaráðuneytið fær 42 milljarða á næsta ári en fékk 37 í ár.

Samgönguráðuneytið fær hins vegar 24,5 milljarða á næsta ári en fékk 29,7 milljarða í fjárlögum fyrir þetta ár. Þá fær iðnaðarráðuneytið milljarði meira á næsta ári en í ár, eða 6,1 milljarð, en viðskiptaráðuneytið fær um 700 miljarða á næsta ári líkt og í ár. Framlög ríkissjóðs til umhverfisráðuneytisins aukast úr 3,8 til 4,5 milljarða á milli ára. Alþingi fær um 2,4 milljarða til ráðstöfunar en fékk í ár 2,1 milljarð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×