Innlent

Trúir ekki að þetta sé tónninn í Ýmismönnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þór Jónsson.
Þór Jónsson.

Undrun, segir Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, eru fyrstu viðbrögðin við afstöðu forsvarsmanna Siglingafélagsins Ýmis.

„Við trúum því eiginlega ekki að þetta sé tónninn í forystu Siglingaklúbbsins Ýmis. Það sem gerðist þarna var að settir voru niður gámar í bráðabirgðaaðstöðu félagsins sem lokuðu akstursleið íbúa bryggjuhverfisins. Við það varð að sjálfsögðu ekki unað enda voru gámarnir ekki á þeim stað sem um var samið," útskýrði Þór sem segir íþróttafulltrúa hafa farið á vettvang með starfsmönnum bæjarins í dag. Hafi þeir lagað til á svæðinu og næst sé ætlunin að afmarka aðstöðu siglingaklúbbsins með girðingum svo ekki verði ekið inn á svæðið.

Þór segist einkum undrast að þessi ummæli Ýmismanna komi fram núna, „fáeinum dögum áður en taka á skóflustungu fyrir ekki 300 fermetra, eins og talað var um, heldur 400 fermetra aðstöðu sem Siglingaklúbburinn Ýmir fær á nýjum stað. Af hverju er ekki þegar búið að reisa það? Af því að þetta fer á púða sem er á uppfyllingu sem er ekki nægilega sigin til að hægt sé að byggja á honum," útskýrir Þór og bætir því við að það sé vilji Kópavogsbæjar að gera íþrótta- og tómstundamannvirki í bænum sem best úr garði. „Það stendur því alls ekki til að koma eitthvað ræfilslega fram við siglingaklúbbinn," sagði Þór að lokum.


Tengdar fréttir

Verulega ósáttir við aðstöðuleysi siglingafélags

Forsvarsmenn Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi kveðast verulega óánægðir með að Kópavogsbær hafi svikið félagið um bráðabirgðaaðstöðu sem því hafi verið lofað þar til framkvæmdum lýkur við nýja aðstöðu félagsins Fossvogsmegin í Kópavoginum en hennar hefur verið beðið í sjö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×