Innlent

Biðja að heilsa drottningunni

Fulltrúar Kiwanisklúbbsins Höfða, þeir Jakob Marinósson, Sigurður Pálsson, Kristinn Kristinsson forseti og Hjörleifur Jónsson, afhenda Rakel styrk upp á 100.000 krónur.
Fulltrúar Kiwanisklúbbsins Höfða, þeir Jakob Marinósson, Sigurður Pálsson, Kristinn Kristinsson forseti og Hjörleifur Jónsson, afhenda Rakel styrk upp á 100.000 krónur. MYND/Valli
„Skemmtu þér vel í kóngsins Köben. Við biðjum að heilsa drottningunni,“ sagði Kristinn Kristinsson, forseti Kiwanisklúbbsins Höfða í Grafarvogi, þegar hann afhenti Rakel Árnadóttur 100.000 króna styrk í Danmerkursjóð hennar.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í síðustu viku stendur Rakel, sem er fötluð vegna heilalömunar (cerebral palsy), fyrir fjársöfnun til að komast í ferðalag til Danmerkur í sumar.

Rakel var þeim Höfða-mönnum afar þakklát fyrir þessa rausnarlegu aðstoð. Hún sagðist vera farin að hlakka mikið til ferðarinnar, enda ein mesta áhugamanneskja um Danmörku á landinu.

Kristinn las umfjöllun Fréttablaðsins um söfnun Rakelar. Klúbburinn ákvað í framhaldinu að veita henni aðstoð. „Við sáum að þarna var á ferð Grafarvogsbúi sem þurfti á hjálp að halda. Það er okkur ljúft og skylt að veita hana og gaman að Rakel komist í draumaferðalagið sitt,“ segir Kristinn.

Höfði hefur starfað í átján ár og styrkir margvísleg málefni í Grafarvogi og víðar. Klúbburinn er meðal annars styrktaraðili sérnámsbrautar í Borgarholtsskóla og umsjónaraðili barnaklúbbs í Engjaskóla, auk þess að styðja dyggilega við langveik börn, sambýli fatlaðra og ýmis félagasamtök. Meðlimir eru 32 talsins og Kristinn hvetur alla sem hafa áhuga á starfi klúbbsins að hafa samband og kynna sér málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×