Innlent

Plank verður framseldur

Andri Ólafsson skrifar
Premyzlaw Plank í Kastljósi Sjónvarpsins
Premyzlaw Plank í Kastljósi Sjónvarpsins

Dómsmálaráðuneytið hefur fallist á kröfu pólskra yfirvalda um að Premyzlaw Plank verði framseldur til Póllands. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í dag.

Það er því ekki rétt að ákvörðunnar sé að vænta í málinu eins og Vísir greindi frá fyrr í dag.

Plank, sem er pólskur ríkisborgari, er grunaður um morð í heimalandi sínu. Hann hefur verið búsettur hér á landi undanfarið og komist í kast við lögin nokkrum sinnum. Plank var úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan ráðuneytið fjallaði kröfu yfirvalda í Póllandi.

Eins og reglur kveða á um sendi dómsmálaráðuneytið beiðni pólskra yfirvalda um framsal til umsagnar Ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari hefur kannað lögmæti kröfunnar og sent umsögn sína aftur í ráðuneytið sem síðan tók ákvörðun um að fallast á kröfuna.

Plank getur mótmælt ákvörðun ráðuneytisins. Héraðsdómur mun þá fjalla um málið og úrskurða um lögmæti hennar. Ef Plank mótmælir ekki verða pólskir lögreglumenn sendir til Íslands til þess að fylgja Plank til Póllands.

Athugasemd ritstjóra Vísis:

Þórir Hrafnsson, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn Vísis frá því í morgun um framsal Premyzlaw Plank til Póllands kl. 15.12 í dag. Þar kom fram að ákvörðunar væri að vænta í vikulok. Á því byggði Vísir frétt sína sem birtist kl. 15.33. Nú hefur RÚV flutt fréttir af því að framsal Planks hafi verið samþykkt af ráðherra. Um leið og RÚV er óskað til hamingju með fréttina þá harmar ritstjórn Vísis að ekki skuli vera hægt að treysta aðstoðarmanni ráðherra til að segja sannleikann.

Önnur athugasemd ritstjóra

Of sterkt var til orða tekið í fyrri athugasemd ritstjóra þar sem sagt var að ekki væri hægt að treysta aðstoðarmanni ráðherra til að segja sannleikann. Réttara er að segja að ekki sé hægt að treysta á að hann geti sagt allan sannleikann. Er Þórir beðinn velvirðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×