Innlent

Viðskiptaráðherra segir ASÍ njóta trausts

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.

„Eftir ítarlega skoðun og viðræður við ASÍ og fleiri var ákveðið að ganga til samstarfs við ASÍ um sérstaka átakshrinu í verðlagseftirliti næstu mánuðina,” segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra en Félag íslenskra stórkaupmanna sendi frá sér ályktun í morgun og furðaði sig á að ASÍ skyldi vera látið sjá um verðlagseftirlit á vegum viðskiptaráðuneytisins.

„Fystu niðurstöðuna má sjá í fjölmiðlum í dag og er ekki annað að sjá en að sú könnun byggi á yfirvegun og sanngirni. Við höfum auðvitað gengið úr skugga um aðferðafræðin sé í lagi en um að ræða framhald af samningi við ASÍ um eftirlit á verðþróun á vörum og þjónustu," segir Björgvin.

Hann segir að ef stórkaupmenn kjósi að taka tilmæli um frestun verðhækkana sérstaklega til sín þá verði svo að vera. „Ég hef áður tekið það fram að þessu sé beint til allra sem hafa með sölu á vörum og þjónustu að gera. Ekki síður til opinberra aðila, t.d. þeirra sem selja raforku og við höfum fordæmi fyrir því að slíkt verðlagsátak hafi heppnast, síðast árið 2002 þegar náðist að samstilla þjóðarátak í þessum efnum.

Við sjáum góð fordæmi nú þegar, svo sem hjá IKEA og Stöð 2 sem hafa auglýst óbreytt verð fram eftir þessu ári. Tillögur okkar fólust í tvennu, í fyrsta lagi því að fylgjast betur með verðbreytingum á vörum og þjónustu og í öðru lagi að virkja neytendur í fylgjast með verðbreytingum. Maður trúir því varla að FÍS sé á móti slíku átaki," segir Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×