Innlent

Misvísandi upplýsingar um þjóðnýtingu sem þarf að skýra

Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta.
Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta.

Stjórn Samtaka fjárfesta telur að ríkisstjórn og ráðamönnum Seðlabanka og Glitnis beri skylda til að upplýsa almenning um aðdraganda þess að ríkissjóður tók yfir þrjá fjórðu hlutafjár Glitnis.

,,Frásagnir af aðdraganda og framvindu málsins virðast misvísandi. Með það að markmiði að nauðsynlegt traust geti skapast að nýju á íslenskum fjármálamarkaði er nauðsynlegt að glöggar upplýsingar fáist um einstaka þætti málsins," segir í tilkynningu.

Stjórn Samtaka fjárfesta spyr eftirfarandi spurninga:

• Glitnir taldi sig hafa gengið frá fjármögnun út árið 2008 og vel inn á næsta ár. Hvað breyttist svona skyndilega varðandi fjármögnun Glitnis?

• Hvers eðlis voru þau lánsloforð sem Glitnir taldi sig hafa frá erlendum bönkum um eigin fjármögnun þegar þeir gáfu út yfirlýsingar um að bankinn væri fullfjármagnaður? Voru þetta aðeins viljayfirlýsingar eða undirritaðir lánasamningar?

• Hvaða skuldabréf voru það sem Glitnir bauð Seðlabankanum að veði fyrir hugsanlegu láni? Er eitthvað því til fyrirstöðu, að listi yfir tegundir skuldabréfanna og hvaða fjárhæðir voru í hverjum skuldabréfaflokki, verði gerður opinber?

• Hvaða skýrslur, minnisblöð og greinargerðir Seðlabanka, ríkisstjórnar og Glitnis lágu til grundvallar því mati sem fram fór á skuldabréfunum sem Glitnir bauð að veði?

• Hvaða skýrslur, minnisblöð og greinargerðir Seðlabanka, ríkisstjórnar og Glitnis lágu til grundvallar því mati sem fram fór á eignarhlutfalli ríkissjóðs við kaupin á hlut í bankanum?

• Geta ráðamenn Glitnis og löggiltir endurskoðendur, PricewaterhouseCoopers, lýst því yfir að í verðbréfasjóðum Glitnis hafi aðeins verið bréf þeirrar tegundar, og í þeim hlutföllum, sem yfirlýst stefna hvers sjóðs segir til um?








Fleiri fréttir

Sjá meira


×