Handbolti

Hlynur hættur afskiptum af handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Sigmarsson á ársþingi HSÍ í dag.
Hlynur Sigmarsson á ársþingi HSÍ í dag. Mynd/E. Stefán

Hlynur Sigmarsson hefur ákveðið að hætta afskiptum af handbolta eftir að hann tapaði í dag fyrir Guðmundi Ágústi Ingvarssyni í formannskjöri HSÍ.

„Nú er ég búinn að vera í ellefu ár í handboltanum og er núna komið að leiðarlokum hjá mér. Ég mun nú taka að mér önnur verkefni og reyna að standa mig vel í því," sagði Hlynur í samtali við Vísi skömmu eftir að niðurstaðan í formannskjörinu var ljós.

Hlynur hlaut 29 atkvæði og Guðmundur Ágúst 38. „Þetta var mjótt á mununum og hefði eitt stórt félag ákveðið að kjósa mig í staðinn fyrir Guðmund hefði þetta staðið enn tæpar."

Hlynur tilkynnti fyrst um formannsframboð sitt í gær en það hafði reyndar legið lengi í loftinu. „Þetta var ekki of seint að mínu mati," sagði hann.

„Ég skil núna sáttur við handboltann," sagði hann þó svo að hann hafi ekki náð að koma öllum sínum hugmyndum á framfæri. „Þetta er eins og með börnin, það getur enginn fenginn allt."

Hann hefur þó engin skilaboð til Guðmundar og stjórnar HSÍ sem hann hættir einnig í nú. „Ég ætla ekki að leggja línurnar fyrir hann. Guðmundur er með sínar hugmyndir sem hann vill vinna að og það er óskandi þær verði handboltanum í landinu til heilla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×