Innlent

„Ég mokaði þetta kvikindi upp“

Karel gróf niður á sprengjuna í Fagralundi í Fossvogsdalnum.
Karel gróf niður á sprengjuna í Fagralundi í Fossvogsdalnum.

„Ég mokaði þetta kvikindi upp," segir Karel Halldórsson, gröfumaðurinn sem gróf niður á sprengju í Fagralundi í Kópavoginum í dag. Hann segir að um sé að ræða um 60 sentimetra hlut sem líklega sé flugvélasprengja.

„Ég sá þetta í skúffunni, það var laus jarðvegur þarna og ég hélt að það væru einhverjar lagnir þarna en þá kemur þetta bara upp," segir Karel. „Okkur fannst þetta eitthvað skrítið, fórum að skoða þetta og vorum sammála um að best væri að hringja í neyðarlínuna."

Karel segist áfjáður um að fá að vita hvort fleiri sprengjur leynist þarna áður en hann heldur áfram að grafa á svæðinu en sprengjan fannst þar sem fyrirhugað íþróttahús HK á að rísa. „Það væri líka gaman að vita hvernig þetta er tilkomið, hvort herinn hafi verið með æfingasvæði eða geymslur á þessum slóðum."

Að sögn Karels fannst sprengjan á tveggja metra dýpi og var hún nokkuð heil en rauð slikja var yfir henni allri. „Þetta var svona týpísk sprengja, með vængi að aftan og pinna út úr framendanum, þokkalega heilleg," segir Karel sem farinn var að grafa annars staðar í bænum þangað til um hægist í Fagralundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×