Innlent

Ólafur tók hugmynd um samstarf með Framsókn fálega

Óskar og Hanna Birna. Eru þau á leið í borgarstjórnarsamstarf?
Óskar og Hanna Birna. Eru þau á leið í borgarstjórnarsamstarf? MYND/Pjetur

Fréttastofa Sjónvarps fullyrti í kvöldfréttum sínum að Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur vilji Óskar Bergsson úr Framsókn inn í meirihlutasamstarf sitt og F-listans til þess að tryggja meirihlutann enn frekar.

Samkvæmt heimildum Vísis var málið viðrað innan meirihlutans í dag og tók Ólafur fálega í hugmyndir sjálfstæðismanna að bæta framsóknarmönnum inn í meirihlutasamstarfið.

Mikill styr hefur staðið um meirihlutasamstarf D-listans og F-listans í borgarstjórnartíð Ólafs F. Magnússonar og vilja sjálfstæðismenn leita leiða til að rétta úr kútnum.

Að sögn fréttastofu Sjónvarps segja þungavigtarmenn innan raða Sjálfstæðisflokksins að besta leiðin sé að fá Framsókn inn í samstarfið.

Líklegt er þó talið að þessi leið hugnist hvorki framsóknarmönnum né Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, eins og Vísir hefur heimildir um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×