Innlent

Allt í lagi að gera grín að þjóðsöngnum

SB skrifar

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson sem flutti þjóðsönginn með breyttum texta ásamt félaga sínum á sambandsþingi Framsóknarmanna segist undrast viðkvæmni í fólki. Skemmtiatriðið var tekið af netinu eftir að Stöð 2 fjallaði um málið í kvöld.

"Hvaða viðkvæmni er þetta. Spaugstofan gerði þetta svo hversu alvarlegt getur þetta verið. Mér þykir mjög vænt um þjóðsönginn en mér finnst allt í lagi að gera grín að honum," sagði Jóhannes sem hafði ekki séð fréttirnar og hló dátt þegar "stóri þjóðsöngsskandallinn" var borinn undir hann.

Jóhannes sagðist alveg til í að endurtaka leikinn ef tækifæri væri til. "...enda er ég færeyskur í aðra ættina... Nei, nei. Maður á bara ekki að vera með einhverja viðkvæmni."

Skemmtiatriðið af fundi Sambands ungra Framsóknarmanna var tekið af netinu eftir að Stöð 2 fjallaði um málið í kvöld. Hlini Melsted Jóngeirsson stjórnarmaður í SUF birti myndbandið á netinu en nú er það horfið.

"Þetta var nú bara skemmtiatriðið sem við keyptum til að hafa á sambandsþinginu. Ég tók þetta nú út af netinu ef fólk telur þetta lögbrot. Þetta átti bara að vera smá djókur - grín á okkar kostnað," segir framsóknarmaðurinn óheppni sem setti myndbandið á netið en tók það með leifturhraða út aftur þegar málið komst í fréttir.

Brot úr myndbandinu má sjá með frétt Stöðvar 2 hér fyrir ofan.










Tengdar fréttir

Framsóknarmenn misnotuðu þjóðsönginn

Þjóðsöngur Íslendinga var sunginn í breyttri mynd á sambandsþingi Sambands ungra framsóknarmanna á dögunum. Samkvæmt lögum er slíkt bannað og getur varðað sektum eða allt að tveggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×