Erlent

Mannskæðasta tilræðið í marga mánuði í Írak

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Kona með barn leitar skjóls á sama tíma og bandarískir hermenn taka sér viðbragðsstöðu nálægt vettvangi sprengingarinnar.
Kona með barn leitar skjóls á sama tíma og bandarískir hermenn taka sér viðbragðsstöðu nálægt vettvangi sprengingarinnar. MYND/AP

Að minnsta kosti 51 lét lífið og 75 slösuðust þegar bílsprengja sprakk í Baghdad, höfuðborg Íraks, síðdegis í dag. Þetta er mannskæðasta sprengjutilræðið sem framið hefur verið í Írak í marga mánuði, að sögn lögreglu á staðnum.

Sprengjan sprakk nærri strætisvagnastoppistöð og útimarkaði þar sem margir voru á ferli. Á svipuðum slóðum háðu öryggissveitir Íraka og Bandaríkjamanna bardaga við hóp sjíta-múslima.

Þetta var ekki eina sprengjutilræðið í dag því að fjórir létust í norðurhluta Baghdad nokkrum klukkustundum áður þegar ökumaður bifhjóls sprengdi sjálfan sig í loft upp nærri hópi herskárra súnní-múslima. Talið er að þessu tilræði hafi verið beint gegn samtökunum Sonum Íraks sem styðja bandaríska herliðið í landinu. Hryðjuverkasamtökin al Qaeda eru talin standa að baki hermdarverkunum.

CNN greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×