Innlent

Álit vegna Bitruvirkjunar kemur á óvart

Álit Skipulagsstofnunar vegna Bitruvirkjunar á Hellisheiði kemur Hjörleifi Kvaran, forstjóra Orkuveitunnar, á óvart. Eins og fram kom á Vísi í dag leggst Skipulagsstofnun gegn því að Bitruvirkjun verði reist vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.

„Fyrir það fyrsta að þá gerðum við miklar breytingar í öllu ferlinu til að koma til móts við sjónarmið sem höfðu komið frá ferðaþjónustunni og þeim sem eru í útivist," segir Hjörleifur. Þá segir hann að fyrirhuguð hafi verið ný kynslóð af jarðvarmavirkjun sem myndi vera þannig að leiðslur yrðu grafnar í jörðu og stöðvarhúsið yrði eins lítið sýnilegt og mögulegt væri. Þá segir Hjörleifur að álit annarra lögbundinna umsagnaraðila hafi verið með allt öðrum hætti.

Hjörleifur segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar verði rædd á stjórnarfundi Orkuveitunnar á morgun. „En það verður á brattann að sækja með framhald á þessu máli," segir Hjörleifur. Hann segist jafnframt telja að ef ekki sé hægt að byggja jarðvarmavirkjun eins og þessa, í sátt við umhverfið, þá verði jarðvarðmavirkjanir ekki það lausnarorð í framtíðinni sem menn hafi talað um.

Orka úr Bitruvirkjun og Hverahlíðavirkjun eru að hluta til ætlaðar til þess að mæta orkuþörf Helguvíkurálvers.


Tengdar fréttir

Skipulagsstofnun leggst gegn Bitruvirkjun

Skipulagsstofnun leggst gegn því að Bitruvirkjun á Hellisheiði verði reist vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Þá setur stofnunin skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun.

Fagnar niðurstöðu um Bitruvirkjun en harma að ákvörðun sé ekki bindandi

Landvernd fagnar þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar á Hengilssvæðinu sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Hins vegar harma samtökin að álit stofnunarinnar sé ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir.

Varaformaður OR: Bjóst við þessari niðurstöðu

Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar, um að leggjast gegn Bitruvirkjun, sé í takt við það sem hún hafi búist við.

„Í samræmi við það sem við höfum sagt“

„Við getum ekki annað fagnað þessari niðurstöðu, Þetta er í samræmi við það sem við höfum sagt," segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um álit Skipulagsstofnunar vegna Bitruvirkjunar. Stofnunin telur að bygging Bitruvirkjunar á Hengilssvæðinu sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×