Lífið

Íslendingar fyrstir til að sjá nýja seríu Klovn

Íslendingum gefst á morgun tækifæri til að hressa sig við í miðjum bölmóðnum og krepputalinu, þegar tveir þættir úr splunkunýrri 6. seríu Klovn verða sýndir hér á landi. Sýningar á þáttaröðinni eru ekki hafnar í Danmörku, og verða Íslendingar því langfyrstir til að sjá þessa nýju seríu.

Þau Frank, Casper og Iben sem leika í þáttunum koma til landsins á morgun og verða viðstödd sýninguna. „Þau höfðu samband við mig og langaði að sýna þakklæti sitt til íslendinga, og halda hér stund með aðdáendum," segir María Hjálmarsdóttir, sem skipuleggur sýninguna. Tilefni hennar er einnig að fagna nýrri útgáfu á fimmtu seríu þáttanna á DVD, en hún kemur út í Danmörku fjórða nóvember næstkomandi. Þeir eru vafalaust nokkrir sem bíða útgáfunnar með óþreyju, en fyrsta þáttaröðin sem kom út hér á landi seldist upp á fjórum dögum.

María segir leikarana vera afar hrifna af landi og þjóð, og hafi með heimsókninni viljað sýna í verki að þeir kunni að meta Íslendinga. Arfaslakt gengi krónunnar skemmir líklega ekki fyrir, en þjóðardrykkur Dana - bjórinn - er vegna gengis gjaldmiðilsins ódýrari á Íslandi en í Danmörku. María reiknar fastlega með því að þetta muni gleðja þremenningana „Þeir elska íslenskan bjór og brennivín," segir María. „Þeir verða pottþétt ánægðir með það."

Sýningin verður klukkan 16.00 á morgun, miðvikudag, í Iðusölum, á fjórðu hæð Lækjargötu 2a.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.