Innlent

Þurrkar á Suðurlandi raktir til Suðurlandsskjálftans

Bændur á Suðurlandi hafa áhyggjur af því að jarðvegurinn sé að þorna upp og tengja það Suðurlandsskjálfta. Hugmyndir eru uppi um að bændur taki sig saman og stofni vatnsveitu.

Það hefur verið mikil þurrkatíð á suðvesturhorninu undanfarnar vikur. Víða má sjá þess merki á Suðurlandi þar sem margar árnar líkjast orðið lækjarsprænum og rennslið í Ölfusá er þó nokkuð minna en í meðalárferði.

Bændurnir telja að þurrkurinn sé til komin vegna sprungumyndunnar í kjölfar Suðurlandsskjálftans. Telja þeir að vatnið renni einfaldlega niður um þessar sprungur.

Á þessum tíma árs er úthaginn við bæinn Stekka nánast á floti en nú er hann það þurr að sprungur eru farnar að myndast í jarðveginn. Eina sjáanlega yfirborðsvatnið á svæðinu kemur úr Hvítá í gegnum Flóaveitu en það dugir hins vegar ekki til.

Bændur á svæðinu hafa þó nokkrar áhyggjur af ástandinu og hafa þeir gripið til þess ráðs að keyra vatnskör út í hagana eða leggja þangað leiðslur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×