Handbolti

Björgvin Páll: Bara eitt púslið í góðu liði

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Björgvin Páll á fullu í dag.
Björgvin Páll á fullu í dag. Mynd/Vilhelm
Markvörðurinn ungi Björgvin Páll Gústavsson er svo sannarlega ein af stjörnum þessara Ólympíuleika. Hefur staðið sig hreint frábærlega og búinn að stimpla sig inn í íslenska landsliðið með látum.

„Það er stórskringilegt hvernig manni líður. Hundsvekktur að hafa tapað leik en samt stoltur fyrir hönd þjóðarinnar að hafa náð þessari medalíu. Það gerist ekki stærra en að komast í þennan leik," sagði Björgvin Páll sem er einstaklega hógvær maður og vill ekki gera of mikið úr eigin afrekum.

„Þetta gekk svona ágætlega til að byrja með en það var svo stígandi í þessu hjá mér. Ég er bara eitt púslið í þessu liði og það þarf heilt lið til að ná svona árangri. Maður byggir ekki gott lið á einstaklingum, það þarf að vera liðsheild," sagði Björgvin Páll en hann er á leið til 1. deildarliðs í Þýskalandi. Sér hann ekkert eftir því núna þar sem fastlega má gera ráð fyrir að stærri lið gefi honum auga eftir frammistöðuna í Peking?

„Ég pæli ekkert mikið í því. Ég samdi við lið sem ég taldi vera góðan kost fyrir mig. Ég fékk líka tilboð frá félögum í efstu deild í Þýskalandi en ég taldi mig þurfa að spila sem mest og axla ábyrgð á því sem ég er að gera. Þetta er líka frábær staður til að búa á fyrir mig og kærustuna. Ég verð þarna í að minnsta kosti eitt ár en við sjáum hvað gerist eftir það," sagði silfurmaðurinn Björgvin Páll.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.