Innlent

Átöppunarverksmiðja gangsett að Hlíðarenda

Hér sést í hnakka þeirra Jóns Ólafssonar og Össurar Skarphéðinssonar í þann mund sem þeir gangsetja verksmiðjuna.
Hér sést í hnakka þeirra Jóns Ólafssonar og Össurar Skarphéðinssonar í þann mund sem þeir gangsetja verksmiðjuna.

Icelandic Water Holdings ehf. sem síðastliðin þrjú ár hefur starfsrækt átöppunarverksmiðju fyrir Iceland Glacial vatnið í Þorlákshöfn, gangsettu í dag nýja verksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Það voru stofnendur Icelandic Glacial, þeir Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson, sem ræstu fyrri framleiðslulínu verksmiðjunnar formlega í dag ásamt Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráherra.

Verksmiðjan er um 6.700 fermetrar að stærð og mun í fyrri áfanga anna átöppun um 100 milljón lítra á ári, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. „Hún er búin sérstöku orkustjórnunarkerfi til að halda áhrifum á umhverfi og náttúru í lágmarki en Iceland Glacial vatnið er fyrsta vatnið á heimsmarkaði sem hlýtur viðurkenningu The CarbonNeutral Company fyrir algjöra kolefnisjöfnun vegna bæði framleiðslunnar og dreifingarinnar auk annarrar starfsemi Icelandic Water Holdings," segir einnig.

Þá segir að Iceland Glacial vatnið hafi fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir afdráttarlaus gæði sín og hreinleika. „Talið er að um 50 þúsund vatnsverksmiðjur séu starfandi í heiminum en einungis um 170 þeirra skarta svokallaðri NSF viðurkenningu sem er skammstöfun fyrir National Sanitation Foundation. Jafnframt hafa umbúðir vatnsins vakið mikla athygli og hlotið ýmis verðlaun fyrir bæði útlit og gæði. Vatnsból verksmiðjunnar myndaðist í miklum eldsumbrotum fyrir um 4.500 árum. Hraunveggir umlykja vatnið á þrjá vegu en til suðurs streymir það óbeislað til sjávar í magni sem myndi anna tvöfaldri heimsneyslu vatns á flöskum, sem um þessar mundir er um 200 milljarðar lítra á ári. Full afköst hinnar nýju verksmiðju verða um 200 milljónir lítra á ári.

Framleiðslusalir verksmiðjunnar verða hvor um sig á tvö þúsund fermetrum. Lagerhúsnæði verður einnig á tvö þúsund fermetrum og 700 fermetrar verða nýttir fyrir skrifstofur og tæknirými.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×