Innlent

Faðmlög eru óvelkomin í Kringlunni

Ungmenni sem vildu gleðja fólk í verslunarmiðstöðvum í dag með því að faðma þau reyndust ekki velkomin.

Þau Marius og Íris eru fimmtán ára nemendur í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Þau ákváðu að gera sér ferð í Kringluna í dag til að bjóða fólki ókeypis faðmlag. Öryggisvörður þar vísaði þeim hins vegar á dyr þar sem honum leist ekki á uppátækið svo þau héldu þaðan í Smáralindina. Þar fengu leyfi hjá þjónustuborðinu til að bjóða upp á faðmlög.

Marius og Íris segja að þau hafi viljað faðma fólk til að því liði vel yfir jólin. Þau segjast hafa faðmað nokkra tugi viðskiptavina. Faðmlögin féllu vel í kramið hjá gestum Smáralindarinnar sem brostu flestir út að eyrum eftir faðmlagið, en eftir að hafa verið í Smáralindinni í um klukkustund kom öryggisvörður til Mariusar og Írisar. Hann vildi að þau hættu að faðma viðkiptavinina.

Þau urðu við beiðninni en voru þó nokkuð ósátt. Þau sögðu að skýringarnar sem þau fengu væru að aðrir gætu farið að herma eftir þeim með því að faðma fólk og notað tækifæri til þess að stela úr vösum fólks.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×