Viðskipti innlent

Stundaglasið tæmdist með Glitni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
ólafur Ísleifsson, lektor við HR
ólafur Ísleifsson, lektor við HR
Tjón vegna falls bankanna nemur að minnsta kosti 10 milljónum króna á hvern einasta landsmann, segir Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur í grein sem hann skrifar í Markaðinn. Hann segir tjón á mann líklega mun meira.

„Ætla má að beint tjón Íslendinga af þeim viðburðum sem hér hafa verið raktir hlaupi á þúsundum milljarða króna. Verðmæti hlutafjár bankanna nam um 800 milljörðum króna. Þar liggur þó aðeins hluti tjónsins,“ segir hann.

Ólafur leitast við að svara spurningunni um hvort hægt hefði verið að forða falli bankanna, en segir því tæpast verða svarað með vissu.

„En líkindi má telja til þess að önnur afgreiðsla á máli Glitnis hefði gefið bönkunum svigrúm til að mæta lausafjárþurrðinni, hugsanlega nógu lengi til að komast í það skjól sem vænta má af samræmdum alþjóðlegum aðgerðum til stuðnings fjármálakerfinu,“ segir hann í greinni.

„Kannski var þetta spurning um tvær eða þrjár vikur. Við því fæst ekki svar héðan af. Afgreiðslan á erindi Glitnis tæmdi stundaglasið.“

Þá segir hann ekki þurfa að fara í neinar grafgötur um að staða Kaupþings, sem framan af voru ekki öll sund lokuð, hafi „breyst til hins verra að kvöldi þriðjudagsins 7. október þegar bankastjóri Seðlabankans lét í viðtali falla ummæli sem Richard Portes, prófessor við London Business School, segir hafa verið túlkuð svo að að ríkissjóður myndi ekki efna skuldbindingar sínar gagnvart breskum sparifjáreigendum.

Auk þess var ítrekað tekið fram að fyrirgreiðsla Seðlabankans við Kaupþing væri til mjög skamms tíma og þannig gefið til kynna að bankinn stæði afar tæpt. Daginn eftir lækkaði Moody‘s lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um þrjú þrep, heilan flokk.“

Sjá frekari umfjöllun í Markaðnum í dag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×