Innlent

Zimsen-húsið á sinn stað í Kvosinni

Um hundrað og tuttugu ára gamalt hús var í gær flutt á sinn framtíðarstað í hjarta Kvosarinnar. Ferðalag Zimsen hússins frá Grandagarði að Grófartorgi tók hálfa aðra klukkustund og gekk ljómandi vel, segir framkvæmdastjóri Minjaverndar.

Húsið var flutt í gærkvöldi og er nú komið heilu og höldnu á Grófartorgið. Þótt húsið líti vel út að utan á enn eftir að gera það upp að innan. Þó er áætlað að fólk geti eftir átta mánuði farið að panta sér kræsingar á veitingastað sem verður í kjallara hússins en búið er að ganga frá samningi um rekstur hans við Guðmund Hansson veitingamann sem rekið hefur Lækjarbrekku í sextán ár.

Húsið er kjallari og tvær hæðir, samtals um 680 fermetrar. Á fyrstu hæð verður verslun og þjónusta og á efri hæð skrifstofur. Að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdastjóra Minjaverndar, gekk flutningurinn vel og þar sem tíminn á Granda var nýttur til að treysta burðarvirki hússins er stefnt að því að húsið verði fullklárað í maí.

Áætlað er að kostnaður við endurgerð og flutning hússins verði um 240 milljónir króna. Minjavernd fjármagnar endurgerðina og á húsið, samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg. Til stendur að selja húsið í fyllingu tímans þegar markaðsaðstæður leyfa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×