Innlent

Ósátt við niðurstöðu héraðsdóms

Lögmaður landeiganda að Skálmholtshrauni við Þjórsá er ekki sáttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem landeigandinn höfðaði vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um það hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Héraðsdómur sýknaði í morgun ríkið og Landsvirkjun af kröfum landeigandans um að viðurkennt yrði með dómi að eignarréttur ríkisins á vatnsréttindum í Þjórsá í landi Skálmsholtshrauns væri niðurfallinn. Þá hafði landeigandinn fram þrjár aðrar kröfur til vara sem ýmist var vísað frá eða ríkið og Landsvirkjun sýknuð af.

Christiane Bahner, lögmaður landeigandans, segir málið hafa verið höfðað þar sem landeigandinn hafi ekki talið það geta staðist að íslenska ríkið ætti vatnsréttindin en þau öðlaðist ríkið með svokölluðum Títansamningum árið 1952. Landeigandinn væri á móti áformunum um Urriðafossvirkjun vegna hugsanlegra áhrifa virkjunarinnar á land hans.

Christiane segist sérlega ósátt við að þrautaþrautavarakröfu landeigandans hafi verið vísað frá en hún snerist um að vatnsréttindin heimiluðu ekki byggingu Urriðafossvirkjunar.

Hún segir landeigandann hafa mikla lögvarða hagsmuni tengda framkvæmdinni því stíflugarður virkjunarinnar liggi inn á land hans. Enn fremur sé vatnshæð Heiðarlóns, lóns Urriðafossvirkjunar, í sömu hæð og þak húsanna í landi Skálmholtshrauns og húsin standi nokkur hundruð metra frá lóninu. Landeigandinn hafi efasemdir um staðsetningu lónsins í ljósi þess að þetta sé eitt virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Þá óttist landeigandinn að stíflugarðurinn haldi ekki vatninu þannig að grunnvatnsstaða muni hækka og landið allt verði að mýri.

Christiane hafði nýlokið við að ræða við skjólstæðing sinn um dóminn þegar Vísir náði tali af henni. Sagði hún að landeigandinn hefði ekki tekið ákvörðun um það hvort málinu yrði skotið til Hæstaréttar. Christiane segir að ef Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu hafi það fordæmisgildi fyrir aðra landeigendur við Þjórsá sem standi í svipuðum deilum við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×