Innlent

Gísli: Borgarstjórnarflokkurinn styður mig

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi, segir að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins styðji sig einhuga en nýverið greindi Gísli frá því að í vetur hyggst hann stunda nám í borgarfræðum við Edinborgarháskóla. Gísli mun ekki gegna nefndarstörfum á meðan en starfa áfram á vettvangi borgarstjórnar.

Fyrr í dag í samtali við Vísi gagnrýndi Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Gísla Martein harðlega fyrir að ætla að sinna borgarfulltrúastörfum frá Edinborg. Sveinn Andri sagði að margir sjálfstæðismenn í borginni væru afar óánægðir með ákvörðun Gísla og hann sagðist treysta því að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanns ,,vindi ofan þessari hugmynd."

Gísli segir að fjölmörg dæmi séu fyrir því að borgar- og bæjarfulltrúar sinni öðrum störfum eða námi á meðan að þeir gegna störfum sem kjörnir fulltrúar. Hann bendir meðal annars á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi verið borgarfulltrúi á meðan að hún var í námi við London School of Economics árið 2004.

,,Ég man ekki til þess að fjölmiðlar eða aðrir hafi gert athugasemdir við það. Þvert á móti var fjallað frekar lofsamlega um það skref hjá henni að afla sér aukinnar menntunar og reynslu á erlendum vettvangi. Fleiri borgarfulltrúar hafa verið í öðrum störfum en sinnt borgarfulltrúaembættinu samhliða. Sumir með því að mæta bara á borgarstjórnarfundi en aðrir tekið að sér önnur hlutverk líka," segir Gísli.

Gísli sótti um inngöngu í Edinborgarháskóla fyrir rúmlega hálfu ári síðan og hann segir námið í borgarfræðum leggist afar vel í sig. Seinustu misseri hefur Gísli nýtt til að ljúka við BA-gráðu sína í stjórnmálafræði.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×