Skoðun

Úttekt á skólamálum

Þór Ásgeirsson skrifar

Sá gleðilegi atburður átti sér stað fyrir skömmu að bæjarráð og bæjarstjórn Kópavogs samþykktu tillögu skólanefndarinnar um úttekt á skipulagi skólamála í Kópavogi.

Nokkrum vikum áður hafði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fellt sambærilega tillögu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, bæði í skólanefndinni og í bæjarstjórn. Rök meirihlutans fyrir því að fella tillöguna voru æði misjöfn og ljóst að engin fagleg rök voru fyrir þeim viðbrögðum. Halda mætti að pólitísk blinda hafi borið faglegan metnað ofurliði.

Ber því að fagna að meirihlutinn hafi séð að sér.

Ljóst er að umfang skólastarfs í Kópavogi hefur vaxið í réttu hlutfalli við stækkun bæjarins en hins vegar hefur fjöldi starfsmanna á fræðsluskrifstofu Kópavogs staðið í stað. Á þeim 12 árum sem fræðsluskrifstofan hefur starfað hefur nemendum í grunnskólum Kópavogs fjölgað um rúm 40 prósent og skólunum úr sjö í tíu.

Á síðasta kjörtímabili var gerður samningur um fjárhagslegt sjálfstæði skólanna með tilkomu sérstaks skólasamnings. Engin formleg endurskoðun hefur farið fram á skólasamningnum en ýmislegt bendir til að hann þurfi að endurskoða og þá sérstaklega m.t.t. fjármagns til vettvangsferða, sérkennslu og þróunarstarfs innan skólanna. Þeirri fjölgun sem átt hefur sér stað í Kópavogi hafa fylgt ýmsir vaxtaverkir í skólasamfélaginu og mikið álag á starfsfólk fræðsluskrifstofunnar.

Af þeim sökum er mjög mikilvægt að fá utanaðkomandi fagaðila til að meta á hlutlausan hátt skipulag skólamála, greina styrkleika og veikleika kerfisins, og skerpa á meginhlutverki fræðsluskrifstofunnar.

Rúmlega helmingur skatttekna bæjarins fer í skólamál og því er mikilvægt að þeir fjármunir séu nýttir vel, en þó þarf um leið að hlúa vel að starfsfólki og nemendum skólanna.

Allir grunnskólar viðhafa svokallað innra mat sem er partur af gæðakerfi þeirra. Faglegt mat á skipulagi skólasamfélagsins er því í takti við nútímastjórnunarhætti. Mjög mikilvægt er að Kópavogsbær styðji við það metnaðarfulla skólastarf sem er í Kópavogi.

Höfundur er fulltrúi Samfylkingarinnar í skólanefnd Kópavogs.




Skoðun

Sjá meira


×