Innlent

Ölfusingar bitrir vegna Bitru

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ólafur Áki Ragnarsson.
Ólafur Áki Ragnarsson.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri í Ölfusi, segist vera mjög hugsi yfir því hvernig mál jarðgufuvirkjana séu að þróast eftir að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í morgun einróma að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar.

Ólafur segir það umhugsunarefni hvernig Íslendingar hafi hugsað sér að verða sér úti um orku í framtíðinni, hita upp heimilin og skapa sér atvinnu. „Okkur fjölgar hratt og við þurfum einhvern veginn að sjá okkur farborða í framtíðinni og öll þurfum við rafmagn og hita," sagði Ólafur í samtali við Vísi.

Hann sagði ákvörðun Orkuveitunnar ef til vill ekki hafa svo mikil áhrif á sveitarfélagið sjálft heldur á landið í heild sinni. Þá sagðist Ólafur hafa átt von á því að málum lyktaði öðruvísi: „Ég átti von á því já. Ég taldi að vinna okkar og Orkuveitunnar hefði verið það faglega unnin og allrar ýtrustu nærgætni við náttúruna gætt að ég taldi það."

Um rök Skipulagsstofnunar, sem meðal annars tefldi fram sjónarmiðum um veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif Bitruvirkjunar á landslag, útivist og ferðaþjónustu, segist Ólafur hissa á að þau snúist svo mjög um áhrif á ferðamennsku: „Það koma upp undir 400 manns í nýju Hellisheiðarvirkjun á dag. Ég er mikill útivistarmaður og fer mikið um þetta svæði. Ég sé ekki fólk í stórum hópum á þessu svæði."

Að lokum furðar Ólafur sig á framgöngu bæjarstjórnar Hveragerðis í málinu sem hafi náð að mynda ákveðna stemmningu sem erfitt sé að skilja „hér í Ölfusinu alla vega. Bitruvirkjun er um sex kílómetra frá miðbæ Hveragerðis og hefur lítil sem engin áhrif á byggðina þar nema kannski að hún hefði aukið atvinnu á svæðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×