Erlent

Mannskæð sjálfsmorðsárás á indverska sendiráðið í Kabúl

41 er látinn og vel á annað hundrað manns eru særðir eftir að bifreið full af sprengiefni var keyrt inn í indverska sendiráðið í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í dag. Talið er nær öruggt að Talibanar hafi staðið á bakvið tilræðið. Fréttavefur Reuters greinir frá.

Atburðurinn átti sér stað er bíll árásarmanna ók inn í tvær embættisbifreiðar sem voru í þann mund að aka inn um hlið sendiráðsins og varð sprengingin því töluvert nálægt sjálfu sendiráðinu. Við sendiráðið var stór hópur fólks sem hugðist sækja um vegabréfsáritun til Indlands auk þess sem nokkur mannfjöldi hafði safnast saman við stóran markað þar rétt hjá og því var nokkur mannmergð á staðnum er árásin átti sér stað.

Að minnsta kosti eitt barn var meðal þeirra sem létust í árásinni en nær fullvíst þykir að tala látinna eigi enn eftir að hækka. Indversk stjórnvöld hafa nú þegar fordæmt árásina.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×