Erlent

Vöruskortur á Spáni vegna mótmæla vörubílstjóra

Verkfall spænskra vöruflutningabílstjóra vegna hækkandi eldsneytisverðs hélt áfram í morgun, annan daginn í röð. Vöruskorts er er farið að gæta vegna aðgerðanna.

Um níutíu þúsund vöruflutningabílstjórar hafa lagt niður vinnu. Flutningar á nauðsynjum hafa lamast. Bensínstöðvum berast ekki nýjar birgðir af eldsneyti og því hafa Spánverjar víða hamstrað eldsneyti.

Vöruflutningabílstjórar krefja spænsk yfirvöld um aðgerðir vegna hækkandi eldsneytisverðs sem hefur knúið marga starfsfélaga þeirra í gjaldþrot. Verð á dísilolíu hefur hækkað um tuttugu prósent á Spáni það sem af er þessu ári.

Bílstjórarnir vilja að lágmarksverð fyrir þjónustu þeirra verði fest í lög. Yfirvöld hafa hins vegar boðið neyðarlán og eingreiðslur til eldri bílstjóra svo þeir fari fyrr á eftirlaun.

Vöruflutningabílstjórar hafa mótmælt hækkandi eldsneytisverði á Englandi í Frakklandi og Portúgal síðustu vikur.

Þess er beðið með eftirvæntingu að sjá hvernig leiðtogar Evrópusambandsríkja taki á málinu á fundi síðar í mánuðinum. Fulltrúar ESB hafa þó bent á að evrópulög banni fjárstuðning eða niðurgreiðslur til lengri tíma. Virðisaukaskattur á eldsneyti samkvæmt þeim geti ekki verið lægri en fimmtán prósent.

Hækkandi eldsneytisverði er ekki bara mótmælt í Evrópu. Í morgun gengu mörg hundruð vöruflutningabílstjórar um götur Hong Kong og kröfðu yfirvöld um aðgerðir. Í Katmandu í Nepal mótmæltu námsmenn hækkandi bensínverði og kröfðust þess að ríkið hætti einokun á innflutningi og sölu á eldsneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×