Innlent

Lítur á slæma stöðu flokksins sem persónulega gagnrýni

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segist taka slæmri útkomu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum sem persónulegri gagnrýni.

Aðeins fimm prósent landsmanna vill að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson setjist aftur í stól borgarstjóra þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur við því embætti á næsta ári. Þetta kom fram í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir stöð tvö.

Þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn í borginni með 27 prósent fylgi í síðasta þjóðarpúlsi Gallup en þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinnum fengið í könnunum Gallup.

„Auðvitað er þetta ekki góð niðurstaða og þetta er erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Eins er þetta gagnrýni á mig en ég hef hins vegar reynt að vinna vel að málefnum borgarbúa," sagði Vilhjálmur í samtali við Fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld.

Vilhjálmur segist ekki vera búinn að ákveða hvort hann taki við borgarstjórastólnum á næsta ári.

„Það kann að vera....í þágu okkar flokks fyrst og fremst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×