Innlent

Borgarstjóri hefur orðið ber að fordæmalausri framkomu

Minnihlutinn í borgarráði segir Ólaf F. Magnússon borgarstjóra hafa orðið beran af fordæmalausri framkomu gagnvart fyrrverandi samherja og aðstoðarmanni sínum fyrir þær sakir einar að bíða með yfirlýsingar í viðkvæmu skipulagsmáli þar til fagleg úrvinnsla þess hefði farið fram í skipulagsráði.

Þetta kemur fram í bókun sem minnihlutinn lagði fram eftir að meirihluti borgarráðs samþykkti að skipta Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanni borgarstjóra, út fyrir Magnús Skúlason sem fulltrúa borgarstjóra í skipulagsráði.

„Með þessari ómálefnalegu framgöngu hefur borgarstjóri jafnframt vakið umræðu um ákvæði sveitarstjórnarlaga um skilyrði þess að víkja kjörnu nefndarfólki til hliðar gegn vilja þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn verður að axla ábyrgð á þessu einsog öðru. Minnihlutinn situr hjá," segir í bókuninni.

Fram hefur komið að Ólöf Guðný útiloki ekki málssókn á hendur borginni vegna ákvörðunar borgarstjóra. Lögspekingar hafa haldið því fram að sveitarstjórnarlög hafi verið brotin með brottvísun hennar úr skipulagsráði.




Tengdar fréttir

Magnús inn í skipulagsráð í stað Ólafar Guðnýjar

Borgarráð samþykkti á fundi sínum fyrr í dag að Magnús Skúlason kæmi inn í skipulagsráð borgarinnar sem fulltrúi borgarstjóra og hans flokks í stað Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns borgarstjóra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×