Á borgarráðsfundi í morgun var lagt fram álit skrifstofustjóra borgarstjórnar þar sem kemur fram að reglur varðandi gjaldgengi varamanna í borgarráði eru óljósar. Vafinn snýr að því hvort gerð séu strangari skilyrði til varamanna í borgarráði en í öðrum ráðum. Að mati Samfylkingar og Vinstri grænna er vafamál hvort að Guðlaugur G. Sverrisson, varafulltrúi Framsóknarflokksins, sé kjörgengur til borgarráðs.
,,Þetta angrar mig ekki," sagði Guðlaugur og bætti við að málið sé í ákveðnum farvegi og því hafi verið vísað til forsætisnefndar sem mun fjalla um málið. ,,Sumir eru jafnari en aðrir hjá jafnaðarmönnum," sagði hann og vildi litlu við bæta.
Guðlaugur sem jafnframt er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sat sinn fyrsta borgarráðsfund í morgun. Hann skipaði 14. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum.