Innlent

Fjölmennur stuðningshópur ljósmæðra við Karphúsið

Samninganefndir funda nú í Höfðatorgi við Borgartún.
Samninganefndir funda nú í Höfðatorgi við Borgartún. MYND/Stöð 2

Talið er að á bilinu 100-150 manns séu samankomnir við Karphúsið í Borgartúni þar sem klukkan tíu hefst samningafundur hjá Ljósmæðrafélagi Íslands og samninganefnd ríkisins.

Um er að ræða bæði ljósmæður og nýbakaðar og verðandi mæður og feður. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins, sagði í samtali við fréttamann Stöðvar 2 fyrir fundinn að ljósmæður stæðu fast við kröfu sína um 24-25 prósenta launahækkun en hún sagðist ekkert geta sagt til um það hvort samningar næðust í dag.

Verkfall ljósmæðra hófst á miðnætti og hefur starfsemi á þeim sjúkrahúsum þar sem tekið er á móti börnum gengið vel það sem af er. Þetta verkfall stendur til miðnættis á morgun en verkföll hafa verið boðuð næstu vikurnar semjist ekki á næstunni.

Ljósmæðrafélag Íslands hefur opnað símanúmer og kallar það rauðu línuna. Það er stuðningslína fyrir verðandi mæður og fjölskyldur þeirra. Þar fást upplýsingar um hvert verðandi mæður geta leitað og fengið þjónustu á meðan á verkfallsaðgerðum stendur. Númerið er 571-0000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×