Innlent

Ólafur Ragnar heimsótti Peres og Abbas

Mahmoud Abbas tekur á móti forseta Íslands í höfuðstöðvum Palestínustjórnarinnar í Ramallah 3. september 2008 að viðstöddum heiðursverði.
Mahmoud Abbas tekur á móti forseta Íslands í höfuðstöðvum Palestínustjórnarinnar í Ramallah 3. september 2008 að viðstöddum heiðursverði.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í gær fundi með Shimon Peres forseta Ísraels og Mahmoud Abbas forseta Palestínustjórnarinnar. Á fundunum var fjallað um friðarhorfur í Mið-Austurlöndum, samningaviðræður undanfarna mánuði og hvernig sagan sýnir að smá ríki geti stuðlað að sáttargjörð og friðarsamningum, að því er segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Fundurinn með Shimon Peres var í gærmorgun í forsetahöllinni í Jerúsalem en síðdegis fór forseti Íslands til Ramallah, höfuðborgar Palestínusvæðanna, og hitti Mahmoud Abbas í höfuðstöðvum heimastjórnarinnar. Það er í fyrsta sinn sem forseti Íslands kemur til heimastjórnarsvæða Palestínumanna.







Forsetahjónin ræða við Shimon Peres í skrifstofu hans í Jerúsalem.
„Á fundi forseta Íslands og Shimon Peres forseta Ísraels var fyrst fjallað um árangur Íslands í viðskiptum á alþjóðavettvangi og horfurnar í efnahagsmálum þjóðarinnar, aukið samstarf Íslendinga við ríki í Mið-Austurlöndum, heimsóknir forseta Íslands til Abu Dhabi og Katars fyrr á þessu ári og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna," segir í tilkynningunni og því bætt við að Shimon Peres hafi rætt ítarlega um friðarhorfur í Mið-Austurlöndum og lýst helstu átakaþáttum sem einkennt hafa deilur Ísraels og Arabaríkja á umliðnum áratugum.

„Fáir leiðtogar í Mið-Austurlöndum hafa jafnlanga reynslu og Shimon Peres af glímunni við ófrið og átök og tilraunum til að ná varanlegum friði, enda hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 1994," segir í tilkynningunni. „Á fundinum með forseta Íslands lýsti Peres því ítarlega að nú hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að aukin viðskipti, umsvif fyrirtækja, fjárfestingar, menntun og nútímaleg atvinnutækifæri æskufólks myndu skila meiri árangri en viðræður ríkisstjórna."



Frú Dorrit Moussaieff ásamt Mahmoud Abbas Palestínuforseta. Dorrit er íklædd vesti og sjali sem Abbasgaf henni að loknum fundi hans og forseta Íslands. Vestið og sjalið er handgert af palestínskum konum og geymir fjölmörg tákn um frið og farsæla sambúð.
Síðar um daginn heimsótti forsetinn Mahmoud Abbas forseta heimastjórnar Palestínumanna í höfuðstöðvar heimastjórnarinnar í Ramallah á Vesturbakkanum.

„Á fundi þeirra lýsti Abbas mikilli ánægju með heimsókn sína til Íslands í vor og fagnaði aukinni samvinnu Íslendinga við Palestínumenn. Hann bauð forseta Íslands að koma innan tíðar í nokkurra daga heimsókn til heimastjórnarsvæða Palestínumanna til að kynna sér aðstæður, viðhorf íbúanna og sögufræga staði kristninnar."

„Abbas fjallaði síðan ítarlega um friðarviðræðurnar sem fram hafa farið undanfarna mánuði. Enda þótt stjórnmálaástandið í Ísrael og kjör á nýjum forsætisráðherra þar kynni að tefja gang mála taldi Abbas að verulegur árangur hefði nú þegar náðst í mörgum málaflokkum." Að mati Abbas hafi skapast grundvöllur sem hægt væri að byggja á og gæti leitt til formlegra friðarsamninga.

Því væri mikilvægt að nota næstu mánuði vel og hvorki kosning á nýjum forsætisráðherra í Ísrael né nýjum forseta Bandaríkjanna mætti koma í veg fyrir að tækifærin sem nú hefðu skapast yrðu nýtt til fullnustu.

„Einnig ræddu forseti Íslands og Abbas um framlag smárra þjóða til friðarviðræðna og jákvæðrar þróunar í alþjóðamálum. Samningarnir í Ósló á sínum tíma, nýlegir samningar sem gerðir voru í Katar um frið í Líbanon og fundur Reagans og Gorbasjovs í Reykjavík væru allt lærdómsrík söguleg dæmi. Palestínumenn hefðu mikinn áhuga á að nýta sér framlag smárra þjóða sem vildu stuðla að friði."

Fund forseta Íslands og Mahmoud Abbas sat einnig Þórður Ægir Óskarsson sendiherra, sérlegur fulltrúi Íslands gagnvart heimastjórn Palestínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×