„Það kæmi mér ekki á óvart að ég fengi nokkur hnífasett í afmælisgjöf," segir Guðjón Ólafur Jónsson framsóknarmaður en hann verður fertugur í næsta mánuði.
Guðjón á afmæli 17.febrúar og segir aldrei að vita nema hann haldi veislu í kjölfar þess. Að honum læðist sá grunur að menn verði á léttu nótunum og gefi honum hnífasett í afmælisgjöf.
Guðjón hefur verið mikið í umræðunni eftir að hann lét þau orð falla í Silfri Egils að hann væri með nokkur hnífasett í bakinu eftir fyrrum félaga sinn í Framsóknarflokknum Björn Inga Hrafnsson.
Aðspurður hvort hann vanti hnífasett í eldhúsið á heimilinu segir Guðjón og hlær. „Eigum við ekki að segja að ég sé vel birgur eftir atburði síðustu mánaða."