Innlent

Segir Háskólann í Reykjavík græða á orðspori HÍ

„Orðstír háskóla verður ekki keyptur, það þarf að vinna fyrir honum," segir Runólfur Smári Steinþórsson, formaður viðskiptaskorar Háskóla Íslands í bréfi sem hann sendi nemendum í viðskiptafræði. Tilefni bréfsins er að í maímánuði bárust fréttir af því að Háskólinn í Reykjavík hefði náð inn á lista óháðrar stofnunar, Eduniversal, yfir bestu viðskiptaháskóla í Vestur-Evrópu. Runólfur gerir verulegar athugasemdir við þetta val.

„Svo virðist sem upplýsingarnar sem finna má á heimasíðu Eduniversal séu oftúlkaðar en þar kemur, því miður, ekkert fram sem styður að um sé að ræða vandaða úttekt og tilnefningu á „BESTU" háskólunum í heiminum. Miklu frekar virðist þetta tilraun til að draga fram og krýna þekkta háskóla á alþjóðlegum vettvangi í þeim tilgangi að auglýsa heimasíðu Eduniversal," segir Runólfur í bréfinu.

Runólfur segir að Eduniversal sé fyrirtæki sem hafi tekjur af því að selja háskólum aðgang að vefsíðu sinni til að koma á framfæri upplýsingum um skóla og nám. Ekki sé um að ræða viðurkenndan aðila sem meti gæði háskóla. Hann segir jafnframt að könnun Eduniversal standist á engan hátt þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til þeirra sem meti gæði háskólastarfs. Mjög óljósar upplýsingar séu gefnar um það við hvað hafi verið miðað og hvaða upplýsingar hafi verið stuðst við þegar skólar voru valdir.

„Það er jafnframt ekki hægt að líta framhjá því að í könnunum meðal erlendra háskólamanna er óhjákvæmilegt að Háskólinn í Reykjavík njóti þess góða orðspors sem Háskóli Íslands hefur byggt upp á nær heilli öld. Það er vel þekkt að þeir sem ekki þekkja til rugla saman Reykjavík University, Iceland (HR) og University of Iceland, Reykjavík (HÍ). Það er í rauninni ótvíræð staðreynd að Háskóli Íslands er mun þekktari alþjóðlega en Háskólinn í Reykjavík, m.a. vegna þess að hann er mun stærri, hefur starfað mun lengur og er með margfalt meiri rannsóknarumsvif, " segir Runólfur í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×