Innlent

Ástand verðmerkinga verst í nokkrum verslunum 10-11

Verðmerkingar voru í mestu ólagi í nokkrum verslunum 10-11 þegar Neytendastofa gerði könnun þess efnis í nýliðnum ágústmánuði.

Fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar að farið hafi verið í 77 verslanir og valdar af handahófi 25 vörur í hverri verslun. Kannað var hvort vörurnar væru verðmerktar og hvort verðmerking á hillu samræmdist verði í kassa. Þetta var gert eftir að margar kvartanir höfðu borist stofnunni í þessum efnum.

Sex verlsanir reyndust með allt á hreinu en það voru 11-11 Grensásvegi, 11-11 Grafarholti, 11-11 Þverbrekku, Krónan Háholti, Nóatún Hringbraut og Samkaup Búðakór.

Í öðrum verslunum var gert allt frá einni athugasemd til yfir tíu athugasemda vegna varanna 25. Verst var ástand verðmerkinga í verslunum 10-11 Borgartúni, 10-11 Lyngási, 10-11 Staðarbergi og 10-11 Firði þar sem hlutfall athugasemda vegna verðmerkinga var yfir 50 prósent.

Af þeim 1.925 vörum sem skoðaðar voru reyndust verðmerkingar í ólagi í 16 prósentum tilvika. Til samanburðar má þess geta að árið 2006 voru verðmerkingar í 12,2 prósentum tilvika í ólagi og 5,2 prósentum árið 2005.

 

„Í kjölfar könnunarinnar hyggst Neytendastofa senda öllum verslunarkeðjum bréf þar sem greint er frá ástandi í hverri og einni verslun. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um hugsanleg viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga," segir á vef Neytendastofu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×