Viðskipti innlent

Lán leysa ekki vanda Íslands að fullu

MYND/Róbert

Lán til Íslendinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og seðlabönkum ýmissa landa leysa ekki vandamál Íslands að fullu heldur eru einungis lausn á þeirri krísu sem landið er í. Þetta segi Harald Magnus Andreassen, aðalhagfræðingur hjá norska fjármálarfyrirtækinu First Securities.

Norska viðskiptasíðan E24 ræðir við hann um tíðindi af hugsanlegu sex milljarða dollara láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabönkum Japans og hinna norrænu landanna. Andreassen er jákvæður í garð björgunarpakkans og segir hann munu bjarga íslensku efnahagslífi frá algjöru hruni.

„Sex milljarðar dollar ættu að vera nóg til að koma á stöðugleika í gjaldeyrismálum og viðskipti við útlönd," segir Andreassen. Hann bendir þó á að um lán sé að ræða sem bætist við miklar skuldir þjóðarbúsins. „Lánin veita þeim (Íslendingum) aðgang að nauðsynlegum gjaldeyri. Svo verður af afskrifa stóran hluta skuldanna því það er ekki möguleiki að borga þær allar," segir Andreassen.

Hann segir enn fremur að lánin séu ekki langtímalausn. Draga verði úr eftirspurn á landinu og það kalli á mikið aðhald í íslensku efnhagslífi.

Enn fremur segir Andreassen að hin alþjóðlega fjármálakreppa hafi leyst úr læðingi þau vandamál sem blasað hafi við íslensku efnhagslífi en hún sé ekki orsök vandans eins og menn hafi látið í veðri vaka. Vandamál hafi verið í íslenskum efnhag og því geti menn í raun þakkað fyrir að fjármálakreppan hafi komið í ár en ekki eftir þrjú ár þegar ástandið hefði verið enn verra fyrir Íslendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×