Erlent

Falla frá ákæru á hendur 20. flugræningjanum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bygging Pentagon eftir árásina 11. september 2001.
Bygging Pentagon eftir árásina 11. september 2001. MYND/Reuters

Bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon hefur fallið frá ákæru á hendur „tuttugasta flugræningjanum" sem svo hefur verið nefndur. Um er að ræða Mohammad al-Qahtani, einn sex manna sem ákærðir voru í febrúar fyrir morð og stríðsglæpi 11. september 2001. Réttarhöld yfir hinum fimm munu fara fram og krefst ákæruvaldið dauðarefsingar.

al-Qahtani er grunaður um að hafa haldið til Bandaríkjanna á vegum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda með það fyrir augum að taka þátt í hryðjuverkaárásunum haustið 2001. Bandaríska útlendingaeftirlitið veitti honum hins vegar ekki landvistarleyfi og var honum vísað frá Bandaríkjunum.

Hann átti síðar að hafa játað það fyrir samföngum í Guantanamo-fangelsinu að hann hefði tengsl við al-Qaeda en lögmaður hans heldur því fram í tímaritinu Time að játningar hans hafi verið knúðar fram með pyntingum.

BBC greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×