Innlent

Eyjamenn leggja mikla áherslu á ferju í júlí 2010

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Herjólfur. Eyjamenn vonast eftir að ný ferja geti leyst hann af hólmi eigi síðar en í júlí 2010.
Herjólfur. Eyjamenn vonast eftir að ný ferja geti leyst hann af hólmi eigi síðar en í júlí 2010. MYND/Gunnar V. Andrésson

„Við fögnum því auðvitað að það sé einhver niðurstaða að koma í þetta og þrátt fyrir að hafa verið bjóðendur í málinu ásamt Vinnslustöðinni höfum við alltaf litið á þetta sem tvö aðskilin mál," sagði Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, inntur eftir viðbrögðum Vestmannaeyinga við þeirri ákvörðun samgönguráðherra að falla frá smíði Vestmannaeyjaferju í einkaframkvæmd en bjóða verkið þess í stað út með hefðbundnum hætti eins og Vísir greindi frá fyrr í dag.

Gunnlaugur segir hin tvö aðskildu mál vera annars vegar samgöngubótina er ný ferja hafi í för með sér og hins vegar útboðið og rekstur Vestmannaeyinga á ferjunni. „Nú leggjum við bara gríðarlega áherslu á það að verkið tefjist ekki og fari í gang 1. júlí 2010, það er algjör grundvallarpunktur fyrir okkur Vestmannaeyinga. Tíminn vinnur á móti okkur, nú fer þetta aftur í útboð og allt sem því fylgir," segir Gunnlaugur og leggur mikinn þunga á dagsetninguna vegna þess hve miklu það skipti, að sögn kunnugra, að hefja siglingar á nýrri siglingaleið að sumri og svo reynsla hafi fengist á hana er vetrar.

„Það var ekkert aðalatriði," svarar Gunnlaugur þegar blaðamaður spyr hann út í hvort Eyjamönnum þyki ekki svekkjandi að hafa misst af rekstri ferjunnar. „Aðalatriðið er samgöngubótin. Okkar bæjarstjóri vann þarna mjög gott starf með þessum hópi við að bjóða í þetta og það var bónus en aðalatriðið var samgöngubótin," ítrekar Gunnlaugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×