Innlent

Þörf á tilmælum til hagsmunasamtaka á matvörumarkaði

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, og samstarfsfólk hans hefur að undanförnu rannsakað matvælamarkaðinn.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, og samstarfsfólk hans hefur að undanförnu rannsakað matvælamarkaðinn. MYND/Páll Bergmann

Samkeppniseftirlitið hefur ekki lokið athugun sinni á því hvort samtök fyrirtækja á matvörumarkaði hafi gengið of langt í hagsmunagæslu sinni en segir ljóst að beina þurfi tilmælum til slíkra samtaka til þess að gæta þess að aðildarfyrirtækin raski ekki samkeppni.

Í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um viðskiptasamningar birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði segir að eftirlitið hafi fyrr á þesu ári hafið athugun á því hvort tiltekin samtök fyrirtækja á matvælamarkaði hafi gengið of langt í hagsmunagæslu sinni og brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Þar var meðal annars um að ræða Bændasamtök Íslands og Félag íslenskra stórkaupmanna.

Athugun stofnunarinnar er ekki lokið en þó segir í skýrslunni að gögn sem safnað hafi verið gefi til kynna að þörf sé á því að beina almennum tilmælum til slíkra samtaka að gæta að því að ekkert í starfsemi þeirra raski samkeppni milli aðildarfyrirtækja viðkomandi samtaka.

„Með því móti geta samtök fyrirtækja haft frumkvæði að því að uppræta hugsanlegar samkeppnishömlur. Ber í því sambandi að hafa í huga að frá sjónarhóli samkeppnislaga verða hagsmunasamtök fyrirtækja að sýna mikla aðgát í starfsemi sinni þar sem innan þeirra vébanda koma saman keppinautar og hafa samvinnu um atriði sem tengjast atvinnustarfsemi þeirra," segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Einnig kemur fram í skýrslunni að í undirbúningi sé álit til landbúnaðarráðherra vegna innflutningshamlna á landbúnaðarvörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×